top of page
IMG_20190921_134405_260.jpg

Ég garfaði í geymslu foreldra minna í fyrra og varð ljóst að pabbi hafði varðveitt og geymt slatta af fatnaði sem ég gekk í á ýmsum skeiðum lífs míns. Allt frá fæðingu til lok grunnskólagöngu. Ég fór í gegnum þessi föt og mátaði það sem ég komst í. Því næst fann til myndir úr myndaalbúmum foreldra minna þar sem sjá má litla útgáfu af mér klæðast þessum sömu fötum. Ég paraði saman fötin og myndirnar.

Mér finnst föt oft á tíðum gegna furðulegu hlutverki í lífi mannanna. Margar flíkur eiga sér tilkomumeiri sögur en skáldsagnapersónur og það finnst mér forvitnilegt. Ég velti fyrir mér hversu margar flíkur liggi í kössum árum saman og engin snertir eða sér? Flíkur sem liggja og bíða - týna tilgangi sínum með árunum sem líða. Væru þessum flíkum betur borgið í fylgd fjölgun mannsins? Fylgdu lífi sem kviknar af lífi. Eru þessi föt sem pabbi minn geymdi að bíða þess að klæða mín afsprengi? Og ef svo er... hvað ef ég framlengi ekki líf á þessari jörðu inn í þá vá sem steðjar að mannkyninu - þá hamfarahlýnun sem vofir yfir af mannavöldum? Hvað er pabbi að halda í? Hvað er ég að halda í?

 

Pabbi geymdi þessi litlu föt en vegna loftlagskvíða geng ég í fermingarbuxunum af kærastanum mínum og nærbuxum sem ég sjálf fermdist í. Hvað geri ég við gömul lítil föt af mér sem ég virðist ekki geta sleppt takinu af?

2019.

FÖT: Frá Öðrum Tíma er verk í þróun.

Fyrstu drög að verkinu voru unnin á vinnustofunni Kveikjur í umsjón sviðslistahátíðarinnar Lókal.

Afrakstur af tilraunum var sýndur sunnudaginn 22.september í Tjarnarbíó sem partur af dagskrá hátíðarinnar.

bottom of page